Í gróðurvinjum grænum

Höfundur: Örn Friðriksson

Textahöfundur: Friðrik A. Friðriksson

Í gróðurvinjum grænum
hjá gamla heiðarbænum
ég lítinn svein og svanna
á sólskinsdegi leit.
Þau áttu allan daginn
og unga heita blæinn,
og svanavatn, er vorið hló
um víða sveit.
Þar brosa blóm í lundum,
og bárur vaka' á sundum
og þúsund litum loga
í leik vid blæ og sól.
Af nýju yndi alltaf rík
er útþráin um nes og vík,
og litlir fætur flýta sér
um fjöru' og hól.

Að lokum líður dagur,
þótt ljúfur sé og fagur.
Það kyrrir blæ og báru,
og börnin verða hljóð.
Og best er heim að halda,
svo hratt sem fætur valda,
er langt í vestri sígur sól
við svellin rjóð.
Hve gott er heima' að hátta
í hljóði bjartra nátta.
Og mamma segir sögu
og syngur kannski lag.
Og brátt þeim sígur svefn á brá,
þau sofa vært og eignast þá
nýtt svanavatn og sæluheim
og sólskinsdag.